THE MISSION (til að byrja með allavegana...)

MACBETH í Þjóðleikhúsinu

Til umræðu er vinna í tvo mánuði við Macbeth e. Shakespeare í sept/október á Smíðaverkstæðinu haustið 2008 auk tveggja vikna forvinnu í maí. Lagt er upp með tilraunir og nýsköpun sem þema og að æfingaferli sé óhefðbundið til að virkja sköpunarkrafta þátttakenda.Byrjað er með ákveðinn útgangspunkt og unnið með þær hugmyndir sem spinnast út frá honum í samsetningu(devised). Lokaniðurstaða tímabilsins er því ekki fyrirfram gefin heldur ræðst fullkomlega af ferlinu og er eins konar niðurstaða þeirra tilrauna sem fram hafa farið.

 VERKIÐ

Macbeth er eitt þekktasta verk William Shakespeare. Verkið fjallar um valdagræðgi og svik. Verkið byggir að hluta til á sannsögulegum atburðum þar sem Shakespeare styðst við sagnfræðilegar frásagnir af Macbeth konungi Skotlands (1040-1057.) En þess ber þó að geta að Shakespeare gefur sér rúmt skáldaleyfi við úrvinnslu á þeim heimildum. Margir leikarar telja að það hvíli nokkurs konar bölvun á verkinu. Því forðast þeir að nefna það á nafn við æfingar og sýningar og kjósa heldur að kalla það skoska leikritið. Eins er talið líklegt að Shakespeare hafi samið verkið til að hylla forfeður James I Englandskonungs. En hann taldi sig vera afkomanda Banko sem er ein persóna í verkinu. Galdrar og spádómar eiga stóra sess í Macbeth. Það kann að mörgu leyti að útskýra þá bölvun sem er talin hvíla á því. Shakespeare er talinn hafa notað alvöru galdraþulur í verkinu. Það eru til óteljandi sögur af slysum og óhöppum sem tengjast uppsetningu verksins í gegnum tíðina. Macbeth hefur verið sett upp á allan hugsanlegan máta. Verkinu hefur verið fundinn staður á bannárunum í Chicago, í nútímanum og jafnvel á tímum samúræja í Japan. Það er vitaskuld vegna þess að verkið er í eðli sínu erkitýpískt. Umfjöllunarefni þess hentar þess háttar yfirfærslum.Í nálgun okkar á verkinu er hugmyndin að skoða einmitt þessa möguleika. Að vekja þessa vitund um grunnátök verksins á þann hátt að það megi verða sem mest lifandi í meðförum leikhópsins. Skoðun hópsins eða rannsókn hans á verkinu verður í forgrunni. En í stað þess að færa verkið inn í einhvern ákveðin heim felst tilraun okkar fremur í því að reyna að koma auga á það hvaða þráður það er í verkinu sem virðist ekki slitna þrátt fyrir ólíka atlögur að því.

HUGMYNDAFRÆÐI

Sú hugmyndafræði sem við leggjum upp með byggist því fyrst og fremst á tilraunum með formgerð leiklistarinnar og möguleika hennar. Markmiðið er að endurpegla sögn eða innihald verksins hverju sinni. Þetta er gert með tilraunum sem ganga út á samband áhorfenda, leikara og sýningar. Áherslan er því lögð á það hvernig sýn okkar á verkefnið þróast og kemur út í verki í stað þess að gefa sér fyrirfram ákveðna ímynd sýningar.Lögð verður áhersla á verklegar tilraunir með leiklistarformið þar sem flestir þættir verða teknir til skapandi endurskoðunar. Varpað verður upp spurningum um eðli viðfangsefnisins út frá eiginleikum formsins og hugmyndum okkar. Til að mynda veltum við því fyrir okkur hvað sé texti. Hvernig notar maður texta? Hvernig miðlar maður texta? Hvert er samband texta og áhorfenda? Hvað er leikari? Hvaða virkni hefur samfélagið í leiklist? Hvað er kjarni verks/leikrits? Hvert er hlutverk höfundar í listrænu ferli? Hver er höfundur sýningar? o.s.frv. Úrvinnsla þessarar leitar fer fram verklega þar sem möguleikar miðilsins verða kannaði í nánu og lifandi sambandi áhorfenda og leikara. Við leggjum sömuleiðis ríka áherslu á að skoða hlutverk og stöðu hvers og eins innan hópsins, hvaða möguleika við bjóðum upp á hverju sinni í samhengi við viðfangsefni okkar. Með því að stíga út fyrir ramma okkar venjulegu getu skapast spenna og í henni felast möguleikar á nýsköpun og frumleika. Með því að leggja undir í listrænu ferli, taka áhættu, fjárfestum við í því sem við erum að gera og gerum okkur betur grein fyrir áhrifum verksins á áhorfendur. Enn fremur viljum við sækja innblástur í ólíkar list og fræðigreinar, s.s. menningarfræði, heimspeki, myndlist og tónlist. Markmiðið er að opna fyrir nýjar nálgunarleiðir sem nýtast í sköpunarferli okkar og kynna listformið fyrir ólíkum nálgunarleiðum.

AÐFERÐAFRÆÐI

Sú verklagsaðferð sem lögð er til grundvallar einkennist af því að sýna og meta jafnóðum, þ.e. hugmyndir sem alla jafna eru prófaðar verklega á lokuðum æfingum verða færðar hugsanlega fyrir augu áhorfenda á opnum æfingum eða þar til gerðum viðburðum, s.s. stuttum og/eða óundirbúnum sýningum. Áhorfendur eru þannig tvinnaðir inn í sköpunarferlið með það fyrir augum að virkja gagnrýnið samband áhorfenda og leikhóps. Til að nýta þetta ferli sem best munum við skipta því í þrep (vika, hálfur mánuður, mánður) og verður í hverju þrepi gerð tilraun með vinnu út frá nýrri aðferðafræði og/eða hugmyndafræði. Þetta ber þó ekki að skilja þanng að byrjað sé eftur frá núli í hvert skipti sem ný aðferðafræði er kynnt til sögunnar því samhliða því að nýtast sem tilraunir á formgerð og eðli leikhúsmiðilsins í sjálfu sér hjálpa þær til við að nálgast viðfangsefnið frá sem fjölbreytilegustu sjónarhornum. Þannig er unnið áfram með niðurstöður þrepsins á undan út frá breyttum forsendum.Megin viðburður ferlisins er lokasýning sem er eins konar niðurstaða þeirra tilrauna og rannsókna sem ferlið felur í sér. Vonast er til þess að með þessu fyrirkomulagi opnist fyrir víðari skilning á forminu og virkari þáttöku áhorfenda í sköpunarferlinu. Um leið viljum við kanna tjáningarmöguleika okkur í hinum mismunandi aðferðum og nálgunum. Í stutti máli krefst ferli af þessu tagi að unnið verði á hraðan og skilvirkan hátt og stokkið sé á þær hugmyndir sem kvikna hverju sinni. Ákveðið flæði er því ríkjandi og má segja að eins konar vertíðarstemmning ráði ríkjum. Með því að opna hugsanlega ferlið fyrir áhorfendum er unnið markvissara með eðli og formgerð viðtekinnar leiklistar og möguleikar til frekar tjáningar listamannanna kannaðir til hlýtar. Litið er á tímabilið sem eins konar festival þar sem leiklistarmiðillinn og möguleikar hans til listrænnar tjáningar eru teknir til skoðunnar.

ÚTGANGSPUNKTAR

Útgangspunktar geta verið margs konar, allt frá leiklistarklassík yfir í óhefðbundnari efnivið, til dæmis myndlistarverk, dagblað frá þeim degi sem hafist er handa eða óhlutstæð hugmynd (konsept). Útgangspunkturinn er þó alltaf háður skilningi okkar á efniviði leikverksins og meðal annars skoðað hvaða samfélagslegu hugmyndir innan þess heilla okkur og hins vegar hvernig verkið virkar innan leiklistarmiðilsins. TEXTITextinn er ráðandi afl í íslenskri leiklist. Þetta sést einna besta á allri umfjöllun um leiklist þar sem höfuðáhersla er lögð á leikritið og meiningu höfundar. Texti felur í sér mikla möguleika og á aldrei að líta á hann sem ákveðna gefna stærð heldur mun frekar að athuga hvað hann hefur upp á að bjóða hverju sinni í samhengi við vilja eða sýn leikhóps. Verkið, sem slíkt, er aldrei heilagt heldur stökkpallur, grindin sem ný sýning er smíðuð utan á.HÖFUNDUR Hér vinnum við að verkinu út frá hugmyndum um höfundinn. Forsendurnar eru heimur höfundar og virkni innan listformsins. Hér munum við skoða sögulegt samhengi höfundarins, möguleika hans innan sýningarinnar og afstöðu áhorfenda til hans. LEIKARISamband leikara og áhorfenda er vettvangur sköpunar í leikhúsinu. Við viljum skoða þá möguleika sem felast í leikaranum sem uppsprettu sköpunar og tjáningar út frá áðurnefndu sambandi. Okkur er hugleikið hvert hlutverk leikarans er, hvenær hættir leikari að vera leikari og hver eru mörk sköpunar hans? Unnið er í spuna út frá ákveðnum hugðarefnum leikhópsins sem brennur á honum í vinnuferlinu..

Heimildir/Referencar/Heimasíður/Hópar

Volksbuhne leikhúsið í Berlín hefur verið framarlega í nýsköpun í evrópsku leikhúsi á síðari árum undir stjórn Frank Castorf. Þar hafa menn eins og Christof Schlingensief, Jonathan Meese og Rene Pollesch vakið athygli. Athyglisverðar tilraunir með fyrirbæri eins og texta og leik. www.volksbuehne-berlin.de www.christofslingensief.com

Forced Entertainment er breskur leikhópur sem að hefur starfað saman í 25 ár að fjölda áhrifamikilla sýninga víðsvegar um heiminn. Áberandi hugmyndir um samband listsmanna og áhorfenda og mikil samfélagsleg skírskotun. www.forcedentertainment.com

Gob Squad er bresk/þýsk leikhús samsuða hefur unnið með leikhúsformið á skemmtilegan hátt út frá samblöndun listforma þar sem að helmingur hópsins er myndlistamenntaður. www.gobsquad.com

Punchdrunk sérhæfir sig í samsuðu á performanslist, músík og stórum uppákomum þar sem áhorfendurnir fá að ráða sér að miklu leyti sjálfir.www.punchdrunk.org.uk

Rimini Protokoll er þýskur leikhópur sem gerir sýningar með “alvöru” fólki, þ.e. ekki leikurum heldur fólki sem að er sérhæft í viðfangsefninu og segir sína eigin sögu. Mjög athyglisvert í samhengi við leikarann. www.rimini-protokoll.deSchaubuhne leikhúsið í Berlín hefur unnið markvisst að því að koma ungu fólki inn í leikhúsið. Meðal annars hefur það leitast við að kynna nýja höfunda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband